fimmtudagur, október 30, 2003

í gær var fundur í skólanum um prófið. Bjerkaas sem sér um þennan áfanga sat fyrir svörum. Þar sem þetta er í fyrsta skiptið sem prófað er í anatomiu og fysiologi saman þá vissi hann varla mikið meira en við um hvernig prófið yrði, mjög svo uppörvandi hvað það er allt svo vel skipulagt í þessum skóla. Hann var nú ekki alveg viss um hversu margar spurningar yrðu en bjóst við að það væri örugglega gáfulegast að hafa frekar nokkur smá verkefni heldur en bara fá stór. Þau sem semja prófið vita heldur ekki alveg hversu langt prófið má vera en auðvitað verður reynt að hafa það passlegt. Það kom ein spurning hvort ekki yrði gert ráð fyrir matartíma þar sem prófið er 7 tíma langt, já kæru lesendur prófið er 7 tíma langt! og þar sem ég er útlendingur þá fæ ég auka tíma, er ekki alveg viss um hversu langan auka tíma því listinn yfir aukatíma í tengslum við venjulegan próftíma náði bara upp í 6 tíma próf. Þegar um er að ræða 6 tíma próf þá fæ ég auka klukkutíma, þannig að ég fæ líklegast milli 8 og 9 tíma til að leysa þetta próf, og fjandinn hafi það þá finnst mér ég eiga skilið hálftíma í mat! Bjerkaas brosti nú yfir matartíma spurningunni en sá svo að öllum var fúlasta alvara og þá "öhömm júú... ætli það verði nú ekki tekið með í reikninginn varðandi lengd prófsins..."
Svo var rætt um þetta nýja einkunnarsystem. Nú í fyrsta skiptið verða notaðar einkunnir á skalanum A - F í staðin fyrir frá 1 - 12. Þetta er enginn prósentuskali heldur verður þetta meira svona huglægt mat á almennri þekkingu á efninu. Það borgar sig sem sagt að læra lítið um allt heldur en mikið um lítið. Fyrst þegar ég frétti af þessum nýja skala þá fannst mér þetta bara vera fáránlegt, afhverju gæti þetta fólk ekki bara séð ljósið og tekið upp prósentuskalann sem hefur reynst okkur Íslendingum svo vel. En svo fór ég að hugsa, eins og prófin eru hér þá er sjaldnast til rétt eða rangt svar, það er mjög erfitt að segja júúú þetta svar er svona 65% rétt. Og er það réttlátt að einhver sem ákvað að lesa mjög vel fyrstu 6 kaflana og getað þannig svarað mjög vel nokkrum spurningum en alls ekki öðrum, fái hærri einkunn en sá sem las allt en vissi ekki smáatriði heldur gat alltaf svarað einhverju en aldrei ýtarlegu svari?
Þannig að ég er eiginlega komin á þá skoðun að þetta sé bara ágætis skali, allavega hvað snýr að þessu námi. Þegar við erum að tala um stærðfræði og svoleiðis þar sem annaðhvort er svarið rétt eða ekki þá finnst mér prósentuskalinn vera bestur.

Engin ummæli: