jæja þá fer sveitadvöl minni að ljúka bráðum, verð í sveitinni fram á fimmtudag. Núna sit ég á dýralæknastofunni og á að fljóta með í útköll. Í morgun voru tveir grænlenskir sleðahundar geltir og liggja þeir núna og eru að ranka við sér. Þeir pissuðu um alla kaffistofu og skurðstofuna líka, öllum til mikillar ánægju... Annars hef ég bara verið að mjólka og á hestbaki, ég var ekki fyrr farin að hanga á baki en Gurrý lét mig teyma annað hross, það hefur nú gengið ágætlega nema hvað í gær þá var merin eitthvað pirruð því við settum beisli upp í hana og hún var bara alls ekki sátt og var í því að böggast og pirrast út í hin hrossin og kom það auðvitað helst niðrá Álfi, hestinum sem ég er alltaf á, sem var orðin ansi þreittur á henni á endanum.
Svo var ég að hjálpa Sjonna við klaufsnyrta Nótt um daginn og auðvitað steig hún á vinstri fótinn á mér þar sem ég var ennþá aum og marin eftir að Aska trampaði vel og vandlega á tánum mínum, Nótt fannst auðvitað bara þægilegt að stíga á eitthvað svona mjúkt og kom með allan sinn þunga. Þegar við vorum svo að klippa hinum megin þá auðvitað var alveg tilvalið að troða ofaná hægri fætinum mínum svo hann yrði nú blár og marinn í stíl við vinstri fótinn. Gurrý finnst auðvitað bara fyndið hvað ég er dugleg við að láta stíga á tærnar á mér...
Annars er ég tilraunadýr hjá Gurrý núna, hún er að æfa sig í craníó (ömmm veit ekki íslenska heitið yfir þetta "nudd") hún skellti mér á bekkinn í gær, þetta var ágætis slökun og virðist ég vera ágætlega mótækileg en ég á víst að finna fyrir meiru í næsta skipti Gurrý var svona að starta mér í gær.
Við erum núna að bíða eftir því að hundarnir verði sóttir (þeir gráta voðalega mikið núna...) og svo fer ég á eitthvað flakk með Ella, sem er reyndar að sónarskoða hest núna. Guðmundur er úti að sprauta einhverja hesta.
Ég hef auðvitað verið látin sprauta veikar kýr á bænum, það var ein með júgurbólgu sem þurfti að fá spenasprautu og svo pensillínsprautu tvisvar á dag, ég var sett í það svo núna er Pysju meinilla við mig eftir allar þessar stungur en ég er allvega orðin æfð í að sprauta í vöðva og undir húð.
Hvað hef ég verið að gera meira... já ég fór í sumarbústað með Ernu, Hlyn, Jenný og Hlyn. Erna og Hlynur komu og sóttu mig á laugardaginn og svo var farið í sund og grillað og drukkið rauðvín og spilað ferlega gaman en ég var alveg handónýt á sunnudaginn og þvældist bara fyrir í fjósinu ef eitthvað var.
Ég er orðin sveitó... er komin með sigg á hendurnar... fingurgómarnir eru eins og sandpappír er alltaf bara í skítafötum með fjósalykt, svartar sorgarrendur og auðvitað alltaf í stígvélum og lopapeysu...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli