sunnudagur, júní 29, 2003

hnuss það er búið að breyta blogginu mínu og íslensku stafirnir eru ekki alveg að gera sig... nenni ekki að fikta í þessu núna. Allavega ég var búin að blogga fullt hérna um daginn en þá var verið að breyta svo ég gat ekki bloggað en ég set það bara inn núna.

25.júní

jæja þetta var nú meiri dagurinn. Hann byrjaði rólega, maður vaknaði um 6 leitið og fór í fjósið kýrnar eru reyndar búnar að vera frekar leiðinlegar eftir að kálfurinn fæddist og ráfa bara um fjósið og engin fer á réttan bás og við á eftir að reyna hotta þeim áfram og fáum bara frekjulegt baul og svo er bara staulast yfir á næsta bás eða hlaupinn hringur um fjósið og yfirleitt farið aðeins út úr fjósinu og svo endað á sama ranga básnum. Ég sé svo um að gefa kálfinum úr flösku. Sjonni ákvað svo að bæta 4 kvígum við kúahópinn og börðumst við tvö við að draga þær eina og eina úr stíunni yfir á bás, það var togað og ýtt og reynt að lokka þær með góðu ekkert að þessu virkaði voðalega vel og drógst ég með einni kvígunni yfir hálft fjósið svo var maður auðvitað bara í sleipum stígvélum og rann í kúaskítnum skautandi um haldandi í reipið að reyna halda kvígunni og toga hana í rétta átt þetta hafðist samt á endanum þrátt fyrir mikil mótmæli og er ein, sú sem sýndi mestan mótþróa búin að baula stanslaust í allan dag, er ekki sátt við að vera komin á einhvern bás inn í fjósi. Sjonna fannst svo alveg tilvalið að ég myndi þrífa kálfafjósið því þegar ég yrði dýralæknir þá yrði ég auðvitað alltaf nöldrandi í bændum um að þrífa fjósin og hafa allt hreint og fínt það væri því gott að ég fengi nú að vita hversu erfitt væri að þrífa þetta. Mér var því úthlutað háþrýstidælu og úðaði ég alla veggi og bleytti vel upp í skítnum og lét þetta svo bíða og blotna meðan ég fór og fékk mér morgunmat og svo auðvitað lagði ég mig aðeins. Svo gallaði ég mig upp í fínu gulu pollabuxurnar mínar og hófst handa við að spúla.

Þegar ég var rétt byrjuð kemur Hjalti litli og kallar á mig að ég eigi að koma því það hafi traktor keyrt á húsið, ég auðvitað flýti mér yfir í hús og sé þar að gamli traktorinn hefur lent á einu húshorninu en enginn er nálægt. Gurrí kemur svo hlaupandi út að biður mig um að líta eftir krökkunum meðan hún athugi hvað hafi gerst, Hjalti og Sunnar voru auðvitað í áfalli eftir höggið því þau héldu að enn einn jarðskjálftinn hefði dunið yfir húsið. Sjonni kemur þá hlaupandi inn og tekur teppi og púða, Guðjón, 14 ára strákur sem er nýkomin í sveitina hafði þá lent undir traktornum. Svo kom læknir og sjúkrabíll og auðvitað lögreglan og brunað var með Guðjón í bæinn. Hann og Hjalti gamli höfðu þá verið í skemmunni að ditta að traktornum og Hjalti hafði beðið Guðjón um að drepa á traktornum og setja hann í gír, Guðjón hafði þá ekki drepið nógu vel á traktornum áður en hann setti hann í gír og hökti traktorinn í gang og lenti Guðjón undir afturdekkinu, traktorinn rúntaði svo yfir túnið og endaði hér á húsinu. Guðjón meiddist sem betur fer ekki mikið, marðist aðeins og er alveg ótrúlegt að ekki fór verr. Hann ætlar nú að koma aftur í sveitina en ekki strax á morgun... Hjalti gamli kennir sér náttúrulega um karlgreyið. Auðvitað var rosalegur léttir að frétta að Guðjón væri svotil ómeiddur og það skilur bara enginn að hann skildi ekki brotna eða fá innvortis meiðsl.

Eftir þetta áfall hélt ég áfram að spúla kálfastíuna og voru gulu pollabuxurnar mjög vinsælar og oftar en ekki fann ég þar sem var togað aftan í mig og var þá einhver tuddinn farinn að japla á buxunum, eða ullapeysunni, eða hárinu mínu... allavega var voða spennandi að horfa á mig spúla. Þegar ég var nýlokin við að þrífa þá var komin mjaltartími og kýrnar höfðu nú bara komið af sjálfstáðum upp að hliðinu, ég fór og opnaði hliðið og vöktu buxurnar mikla athygli, ég rölti auðvitað áfram niðrá tún til að athuga hvort einhverjar væru ennþá á beit og ætlaði þá bara hálf hjörðin að elta mig því buxurnar voru víst svona rosalega sleikjulegar. Eftir að hafa rekið kýrnar af stað í átt að fjósinu þá rölti ég áfram niðrá tún og sá þá að þar voru þrjár sem létu bíða eftir sér, kvíguvitleysingarnir tveir og svo Aska sem fer nú að bera hvað á hverju. Aska vissi nú alveg hvað væri ætlast til af henni þegar ég birtist en annar kvíguvitleysingurinn lét mig hlaupa um allan móann á eftir sér. Þegar ég svo loksins kom í fjósið með vandræðagemlingana þá var Sjonni í mestum vandræðum að koma kúnnum á rétta bása því það voru sömu stælar í þeim og um morguninn, engin fór á réttan bás og svo var bara hlaupið út aftur og látið elta sig og svo farnir nokkrir hringir um fjósið. Ég var svo bara send heim í mat og þá föttuðum við Gurrí að Spaði heimilishundurinn hafði bara ekki sést síðan slysið gerðist, hann er nú yfirleitt eins og skuggi á eftir mér en ég hafði bara haldið að hann væri með Sjonna eða með krökkunum. Spaði greyið hafði þá verið lokaður inn í bíl til að hann væri ekki að þvælast fyrir meðan verið var að hlúa að Guðjóni og svo gleymdist að hleypa greyinu út, hann var voða glaður loksins þegar hann fékk að fara út. Ég fékk mér nú að borða en fór svo aftur út í fjós til að hjálpa til við mjaltirnar, Gústa systir hans Sjonna var þá með einn hestinn sinn og vantaði aðstoð við að skaufahreinsa hann (jájá það þarf að hreinsa typpin á þessum greyjum) Gurrí hafði tekið eftir því að hann ætti í erfiðleikum með að pissa og hélt að hann væri með mikið af steinum. Gústa skolaði hann nú vel og vandlega en fann enga steina. Ég fór svo og gaf kálfunum og svo voru kýrnar leystar út, eins og þær eru þrjóskar við að koma inn þá eru þær ennþá þrjóskari við að fara út, við bíðum yfirleitt með að leysa þær fyrr en þær eru búnar að skíta svo þær skíti ekki um allt fjósið á leiðinni út en sumar halda bara í sér en ég er þrjóskari og það fær sko engin að fara út fyrr en hún er búin að skíta! svo reyndar sá ég að sumar voru búnar að rembast og rembast að reyna skíta til að fá að fara út en ekkert kom og þá leysti ég þær nú.
Svo komu gestir og fóru allir yfir til Hjalta og Jónu og fengu hafragraut og fisk, ég lét mér nægja hafragrauturinn. Þetta voru Valdi bróðir Sjonna og kærasta hans Hrefna og systir hennar María, Valdi og Hrefna voru að koma frá Krít. Auðvitað var spurt um veðurfar og hvernig búpeningurinn væri þarna, hvort þau vissu hvernig heyskapurinn færi nú fram, auðvitað gæti féð verið á beit allt árið ætli þetta væri ekki mest hálmur sem væri verið að heyja...

jæja þetta er búinn að vera langur dagur og ég er farin í bælið...

Engin ummæli: