jæja á maður að fara blogga eitthvað um sveitina... nú verður auðvitað ekki bloggað um annað en tíðina, heyskap, hvernig kúnnum heilsast og hvað fólkið í nálægum bæjum aðhafist.
maður er bara á fullu í sveitasælunni að mjólka, ríða út, járna, snúa heyi, taka á móti kálfum...
Ég er semsagt á sveitabæ sem heitir Raftholt, þar búa Sjonni og Gurrí og heimasætan Sunna og í næsta húsi eru foreldrar Sjonna þau Hjalti og Jóna. Hér eru auðvitað kýr og kindur og svo hestar.
Nú ég búin að vera tæpa viku í sveitinni og öll að koma til í sveitastörfunum, þau níðast samt ósköp lítið á mér þrátt fyrir hótanir svo ég hef það bara rólegt. Ég er að verða vön í fjósinu aðeins farin að setja tækin á og af en er samt mest í því að þvo þeim og toga í spena (er þar með natural talent...) samt get ég alveg orðið gráhærð á þessum blessuðum kúm því þær nenna ekki inn í fjós, fara á vitlausa bása eða standa bara og sleikja veggina og svo eftir mjaltir þá nenna þær ekki út aftur og hlaupa hring eftir hring í fjósinu og ég auðvitað á eftir. Í gær var ég svo send lengst út í haga að sækja eina sem var lögst lengst frá hópnum og ætlaði bara að fara bera þar, hún var ekki sátt við að vera rekin ein inn í fjós. Svo um um kvöldið var Stappa svona að hafa sig upp í það að fara bera og ég fékk að þreifa inn í hana, fann fyrir tveim framfótum og hausinn var þarna víst líka en ég gat ekki fundið hann... þetta gekk samt eitthvað hægt hjá henni svo ég fór bara í rúmið en Sjonni hafði svona annað augað með henni. Gurrí bankaði svo á hjá mér um nóttina því þá var allt komið af stað, ég dröslaðist út í fjós og þá voru klaufarnar komnar út. Svo hjálpuðum við Stöppu aðeins en hún sá nú að mestu um þetta sjálf og eignaðist þennan líka spræka tudda. Ég fékk svo að sprauta undir húð kalki og magnesíum því Stappa var hálf slöpp eftir þetta og þurfti smá vítamínsprautur á eftir. Svo er önnur kú, Aska, að fara bera hvað á hverju en hún og Stappa voru settar á sama tíma.
Á milli mjalta hef ég svo verið að hjálpa til með hestana en Gurrí er að reyna gera hestamanneskju úr mér. Hún er með meri sem hún vill endilega að ég hjálpi til við að temja svo núna í hvert sinn sem eitthvað þarf að gera við merina þá er ég sett í það. Í fyrradag fórum við svo í útreiðatúr ég var á Álfi sem ég á að vera á hér eftir og Gurrí var svona að reyna láta mig sitja rétt og segja hvað ætti að gera og hvað ekki.
Í morgun var ég svo ósköp þreitt enda sofnaði ég seint en það var verið að mæla mjólkurmagn í kúnnum í dag svo ég varð að fylgjast með. Ég var auðvitað sett í það að skrá allt niður og taka sýni, ég gat svo lagt mig á eftir því hér var allt rólegt í rigningunni en í þurkinum sem hefur undanfarið þá hefur auðvitað verið heyjað á fullu og Sjonni fékk mig nú til að snúa heyji með sér, það var nú sveitastemmning í lagi, rúnta um túnið á traktor með heimilishundinn Spaða mér við hlið, ég og Spaði erum miklir félagar enda er ég sú eina sem nenni að knúsa hann.
Reyndar hefur dvölin hér ekki verið að gera góða hluti fyrir ofnæmið mitt, hér er auðvitað köttur á heimilinu sem andstætt öllum sveitaköttum er alltaf inni og í ofanálag er grasofnæmið... ég er algjört borgarbarn...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli