mánudagur, júní 09, 2003

ég fann kónguló inni hjá mér í morgun. Ég er hrædd við kóngulær, þessi var nú ekki stór en hún var svört og feit með gulum röndum, ég gerðist hugrökk og náði í klósettpappír og tók hana, það heyrðist "krsss" þegar ég kramdi hana og svo henti ég bréfinu og kóngulónni í klósettið og flýtt mér að sturta niður *hrollur* Núna finnst mér ég ekki vera alveg nógu örugg hérna inni hjá mér, hver lítil hreyfing sem ég sé útundan mér finnst mér vera kónguló. Nú mætti einhver halda að það hafa búið í Suður-Ameríku í eitt ár og ferðast nokkra mánuði um Ástralíu þar sem er nú nóg af kóngulóm (risakóngulóm *hrollur*) hefði læknað mig af þessari arachnaphobiu, en nei ég er ekki læknuð en hins vegar er ég hætt að æpa upp yfir mig og hlaupa í felur og í staðin get ég drepið þær, eða allavega upp að vissri stærð. Áður fyrr gat ég ekki einu sinni kramið kónguló með priki.
En að undanskildum kóngulóm og hrossaflugum (sem eru bara eins og fljúgandi kóngulær) þá er ég nú laus við pödduhræðslu, mér finnst býflugur bara sætar og sérstaklega svona stórar, feitar og loðnar humlur þær eru bara krúttilegar, eru með svona litlar klær sem maður finnur fyrir þegar þær labba á hendinni á manni :)

Einhvern vegin tengir maður alltaf svona pöddufælni við stelpur, ég meina strákar eiga ekki að vera hræddir við kóngulær þess vegna fannst mér ógeðslega fyndið þegar núna í haust þegar flutt var inná Bjölsen þá vorum ég og Arnar að hjálpa Hjalta að pakka. Við tökum niður gardínurnar og upp í horni situr stór, feit og pattaraleg kónguló og hafði greinilega verið þarna lengi. Ég auðvitað stekk æpandi í burtu og á bak við Arnar, Hjalti og Arnar koma auga á kóngulónna og æpa þá líka upp yfir sig og hlaupa í burtu, og ég stóð bara og hugsaði með mér "hvað er að gerast? strákar eru ekki hræddir við kóngulær!" nú svo mönuðu þeir félagar hvorn annan upp í að taka ferlíkið og á endanum tók Hjalti af skarið rúllaði upp dagblaði og kramdi kóngulónna með útréttri hendi á meðan við Arnar héldum okkur í öruggri fjarlægð.

Engin ummæli: