jæja gleðileg jól og gleðilegt nýtt ár og allt það!
þá er maður komin aftur til Norge og byrjuð í skólanum. Fór í alveg svakalega leiðinlegan fyrirlestur um fóðrun fiska í morgun og eins og það séu ekki næg leiðindi heldur verður framhald á morgun! sjísss
Hitti Ragga bloggara á vellinum. Greyið var að fara á taugum þar sem hann hafði sett alla mikilvæga pappíra fyrir ferðina til Kanada á vísan stað, vandamálið var að þeir voru ennþá á þeim vísa stað heima hjá honum. En pabbi hans var á leiðinni en það leit út fyrir að þetta yrði tæpt, en það reddaðist og hann fékk að standa í 45 mín. í röð því vélinni seinkaði.
Ég var komin heim seint á sunnudagskvöld. Flugferðin gekk ágætlega, nema hvað þessi bætta þjónusta flugleiða er bara einhver lygi, nú þarf maður að borga fyrir alla drykki nema blávatnið (og það sem blandast í blávatn eins og kaffi og te) Og flugfreyjurnar og þjónarnir voru svo lengi að rukka fyrir að maður fékk ekki drykkinn sinn fyrr en maður var búinn með matinn. Og með í þessari bættu þjónustu þá var ennþá leiðinlegri sjónvarpsdagskrá en venjulega og ég hélt að það væri bara ekki hægt. Yfirleitt á milli landkynningarþáttanna og auglýsinga um ágæti flugleiða þá hefur verið einn gamanþáttur eins og friends en núna þá var einhver leiðindar breskur "gamanþáttur" sem ég hafði aldrei séð né heyrt um og stökk ekki á bros þennan hálftíma sem hann var. Svo var einhver heimildarmynd um Barða þar sem hann slagaði um útúrdópaður og var með stjörnustæla (ekki beint góð landkynning if you ask me) og svo kom einhver þáttur um hvernig viðskiptafólk og fyrirtæki geta nýtt tíman betur eitthvað sem ég nennti alls ekki að horfa á. Reyndar entist ég ekki yfir neinum af þessum þáttum heldur gluggaði bara í eina bókina sem ég fékk í jólagjöf frá Bekku systur. Ég hélt að flugleiðir höfðu sokkið eins langt niður og hægt væri þegar þeir voru að sýna The naked chef á meðan maður borðaði köldu fiskibollurnar en nú var mér alveg nóg boðið. Ég verð að segja að þessir 2 1/2 tími sem ég þarf nú reglulega að eyða í flugleiðavél eru orðnir einhverjir þeir lengstu og leiðinlegustu sem ég upplifi. Ef maður bætir svo við grátandi smábarni með eyrnaverk eins og var fyrir jól þá ertu komin með fyrirtaks pintingartæki.
Arnar og Hjalti voru líka í vélinni, Arnari greyinu var fyrst skellt í verstu sætin í vélinni, þ.e. sætin fyrir framan neyðarútganginn sem eru bæði með minna pláss fyrir fæturnar og þrengri. Hann var nú ekkert að fara leynt með óánægju sína þar sem ég stóð í biðröðinni og beið eftir að komast inn í vél og hann var sestur og kallaði til mín að hann hlyti að vera á einhverjum svörtum lista hjá flugleiðum því honum væri alltaf úthlutað þessu ógeðslega sæti. Flugfreyjan hló vandræðalega og reyndi að snúa þessu upp í grín. Seinna var svo Arnar beðin um að færa sig í næst verstu sætin aftast í vélinni því eitthvað par vildi fá að sitja saman.
Við þurftum svo að bíða endalaust lengi eftir farangrinum, held að það hafi bara verið einn starfsmaður í því að labba með eina tösku í einu frá vélinni og henda henni upp á færibandið. Loksins þegar við vorum öll komin með töskurnar var lestin tekin til Osló, auðvitað rétt missti ég af strætó heim og þurfti að bíða í 20 mín. eftir næsta vagni þar sem klukkan var orðin svona margt. Ég var nú ekki sú eina sem var að snúa heim svo þegar strætó loksins kom þá um 20 manns sem tróðust inn í vagn með bakpoka og ferðatöskur og ég þurfti að standa alla leiðina heim. Þegar ég kem að útidyrunum heima heyri ég í símanum það er þá mamma að hringja, heldur auðvitað að ég sé fyrir löngu komin heim, svo ég hendi öllu frá mér, flýti mér að opna og svara móð og másandi í síman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli