föstudagur, september 26, 2003

Það sem ég er búin að vera gera þessa vikuna:

Síðasta laugardag fórum ég og Eyrún í IKEA. Við tókum IKEA-rútuna, ferlega þægilegt þar sem báðar IKEA-verslanirnar eru svolítið fyrir utan Oslo og finnst mér þetta alveg snilldar hugmynd hjá IKEA að hafa svona ókeypis rútu fyrir viðskiptavini sem eiga ekki bíl. Það fer sem sagt rúta á hálftíma fresti frá miðbænum sem keyrir í sitthvora verslunina. Svo röltum við um búðina og skoðuðum sófa og stóla og borð og létum okkur dreyma um að eignast hitt og þetta, mér finnst alltaf gaman að fara í IKEA svo finnst mér alveg frábært hvað losnar um vissar hömlur hjá fólki þegar það er að prófa húsgögnin, hossa sér í sófunum, testa rúmin og bara virkilega þjösnast á hlutunum. Ég keypti mér borð til að festa á vegginn og það er hægt að fella það niður til að spara pláss og tvo klappstóla til að geta setið við borðið, svo keypti ég líka standlampa, ferlega sætann svo núna get ég slökkt á loftljósunum á kvöldin svo keypti ég líka ýmislegt smádót sem mig vantaði.

Þetta var svona það helsta sem ég gerði um helgina, ekkert djamm, var bara róleg. Á mánudeginum fékk ég svo sent ikea-dótið mitt, því var rúllað bara alveg inn í stofu hjá mér. Þá vantaði mig auðvitað verkfæri til að festa upp borðið svo ég fór til Arnars og Hjalta sem redduðu mér skrúfjárni og festingum fyrir borðið. Eyrún kom svo og hjálpaði mér að festa upp borðið og eins og Eyrún sagði þá er greinilega ástæða fyrir því afhverju við erum í dýralækninum en ekki í verkfræði... En borðið hangir allavega ennþá uppi og ætla ég að vona að það haldist þar.

Þriðjudagur og miðvikudagur voru frekar viðburðarlitlir... nema hvað að ég festi kaup á flugmiða til Atlanta og mun heimsækja Hjördísi 8.nóv og vera hjá henni í viku! ferlega gaman og hlakka ég ýkt mikið til.
En rosalega líður tíminn hratt, fór alltof mikill tími í þessi veikindi... ekki svo langt í þetta próf og svo vika hjá Hjördísi og þegar ég kem heim þá er ekki svo langt eftir af önninni og þá er komið jólafrí! og ég sem ætlaði að reyna heimsækja Emblu og Eirík í haust...

Í gærkvöld var dinglað hjá mér og ég fer fram á gang að svara og þá eru þetta þrjú frá 2.hæð að hóa í fólk til að koma í gangfest. Ég ákvað að athuga málið, tók með mér einn bjór og fór niður á inniskónnum. Þá var nú komið fjölmenni inná ganginn (sem er nú ekki stór...) og sífellt bættist við fólk úr blokkinni. Og auðvitað kynntu sig allir og ég man bara örfá nöfn... og svo var maður spurður hvað maður væri að læra og þegar ég svarðaði dýralæknir, þá kom yfirleitt undrunarsvipur á fólk með vott af smá "hmm... I'm impressed..." eftir að hafa fengið þennan svip nokkrum sinnum með kommentum um hvað það væri erfitt að komast inn í dýralæknaháskólann þá fór mér að líða eins og einhverjum ofvita. Svo er fólk alltaf jafn hrifið þegar ég segist vera frá Íslandi. Torleif bókmenntanemi af 5.hæð er mikill Íslandsaðdáandi, fílar Sigur Rós og Björk og langar ofsalega til að tala Íslensku sem honum finnst alveg ofsalega fallegt tungumál, honum fannst einnig mikið til þess koma að ég væri í dýralækninum, fannst það vera gagnlegra og virðulegra nám en einhver bókmenntafræði, ég gat nú ekki verið sammála honum í því. Einnig vottaði fyrir smá öfundartón hjá fólki þegar ég sagðist vera af 8.hæð, það vilja allir búa á 8.hæð.
Ég fór svo upp til mín að sækja annan bjór og sá þá að það var opið inn til Eriks svo ég ákvað að heilsa upp á hann, þá voru hann og 3 félagar hans að fá sér smá bjór áður en þeir færu niður í gangfestið. Ég var svo samferða þeim niður, þá var komið nýtt fólk sem auðvitað kynnti sig, Jan Erik lögfræðinemi af 6.hæð var mikið að spjalla við mig, ágætis strákur en samt ekki mín típa, Erik hélt samt að ég væri eitthvað að höstla því blikkaði mig og gaf mér svona "you go girl!" bros sem mér fannst ferlega fyndið. Þarna var svo líka strákurinn sem býr vinstra megin við mig, Magnus heitir hann, hann skammaði mig fyrir að vera banka í vegginn svona seint "aha það varst þú sem varst að negla í vegginn um daginn!" ég baðst afsökunnar... Hann var samt ferlega hress, kannski vegna þess að hann var með vodkaflösku í annarri og appelsínusafa í hinni... Eftir að hafa sagt svo nokkrum sinnum ha? við Erik þá játaði ég það fyrir honum að mér þætti alveg afskaplega erfitt að skilja hann og honum fannst það bara ekkert skrítið og sagði "já Herdís mín, einn falllegan dag muntu banka upp á hjá mér og segja: Erik ég skil þig núna"
Um hálf eitt fór ég upp til mín að sofa, en það er búið að skora á 6.hæð (eða var það 5.hæð) að halda næsta gangfest.

Engin ummæli: