Mikil gleði, ég er búin að fá útborgað eftir jólavinnuna og það var bara ágætisupphæð miðað við að ég var bara að vinna hálfan mánuðinn, bjóst við einhverri smánar upphæð frá ríkisfyrirtækinu, en samt miðað við andlega álagið sem fylgir því að selja áfengi yfir hátíðarnar þá mætti alveg láta mig fá meira svo ég gæti gert vel við vini og mömmu fyrir að umbera nöldrið í mér eftir langan vinnudag. Nöldur um vanþakkláta viðskiptavini sem gera allt til að losna við að punga út 15 kr fyrir plastpoka.
Alveg ótrúlegt hvað fólki dettur stundum í hug, einu sinni stóðum við tvær inní búð til að aðstoða fólk þegar það kemur til okkar gömul kona með bjór í körfu og spyr hvað lítil dós af víking kosti (má kannski geta þess að rekkinn með víking bjórnum var alveg í hinum enda búðarinnar) við vorum hvorugar með verðlistann í hausnum en önnur okkar kom með ágiskun á verðið. Gamla konan jánkaði og gekk að afgreiðslukassanum. Eftir dálítinn tíma kemur konan aftur til mín með poka fullan af bjór og segir "bjórinn var dýrari en þið sögðuð!" og horfði á mig eins og hún ætti nú rétt á því að fá mismuninn endurgreiddann og ég bara "jaaaaá ég man nú ekki verðið á öllum vörunum hérna inni og svo stendur verðið líka fyrir ofan dósirnar á rekkanum" Konan strunsar fúl í burtu og skilar bjórnum.
Merkilegt nokk er það bara fólk eldra en fertugt sem er dónalegt, yngra fólk er yfirleitt mjög almennilegt, er ekki alltaf verið að tala um að ungt fólk nú til dags kunni sig ekki svo er það bara þetta unga fólk sem er þolinmóðast en eldra fólkið sem er með yfirgang og frekju. Kannski er það að við sem erum 35 og yngri höfum flest unnið við þjónustustörf?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli