Ég fór með Hjördísi á tónleika í gærkvöldi sem bandaríska sendiráðið hélt í Þjóðleikhúskjallaranum. Við vorum ekki að fara til að hlusta á góða tónlist heldur meira til þess að Hjördís gæti verið góður sendiráðsstarfsmaður. Ég þekkti eina hljómsveit á listanum. Cynic Guru. Við komum hins vegar að læstum dyrum á Þjóðleikhúskjallaranum, við toguðum í hurðir og kíktum á glugga og heyrðum jú óm af tónlist. Síðan kom einhver strákur sem Hjördís þekkti sem söngvara hljómsveitarinnar Kungfú, sem átti víst að vera spila seinna um kvöldið. Ég hafði aldrei heyrt talað um hljómsveit að nafni Kungfú og Hjördís vissi ekkert hvernig tónlist þeir spiluðu eða afhverju hún vissi hver væri söngvarinn. Kungfúsöngvarinn tók upp símann og hringdi í einhvern fyrir innan sem kom og reyndi að opna hurðina, það gekk ekki svo hann fór að leita að starfsmanni. Kungfúsöngvarinn hafði á orði að brunaeftirlitið yrði örugglega ánægt með þetta, ég og Hjördís jánkuðum. Svo stóðum við í vandræðalegri þögn þar til stelpa kom og opnaði fyrir okkur. Þegar inn var komið var bara óvenju fjölmennt þrátt fyrir að hurðin hefði verið læst, setið á öllum borðum bara. Strákur sem vinnur í bandaríska sendiráðinu veifaði Hjördísi að setjast við borðið þeirra svo við tiltum okkur hjá þeim. Cynic guru voru að spila og ég skemmti mér jafn vel og síðast þegar ég sá þá. Í Þjóðleikhúskjallaranum var undarlegur samtíningur af fólki, bandaríkjamenn í miklum meiri hluta. Mér sýndist að Cynic guru væri ekki alveg það sem miðaldra konan í bleiku draktinni með perlufestina og stóru gleraugun, hlustaði vanalega á. Síðan stigu á stokk Kungfú menn og þeir eru víst svona sveitaballaband og spila sveitaballahljómsveitartónlist. Ég sver það mér leið illa fyrir þeirra hönd, hljómsveitin spilaði en enginn var í rauninni að nenna hlusta og fólk klappaði svona kurteisisklapp á milli laga. En svo hugsaði ég með mér að þeim væri nær að spila svona innantóma tónlist.
Ég hélt síðan mína eigin einkatónleika inni á sterli I í dag, var ein með ipodinn minn að tappa bóluefni á glös. Svo heppilega vill til að þegar herbergi er einangrað svona vel og vandlega til að halda öllum bakteríum í burtu að þá verður það hljóðhelt líka. Ég get því sungið ófeimin gamla stevie wonder slagara á meðan ég dæli bóluefni í glös.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli