mánudagur, janúar 20, 2003

Hyttetur



Föstudagurinn

Jiminn ef ég er ekki orðin 1/4 norsk eftir þessa ferð þá veit ég ekki hvað getur gert mig að norðmanni. Skálinn er staðsettur rétt fyrir utan Osló í dal sem heitir Lommedalen (Vasadalur hehehe) Við vorum 4 sem tókum strætó þangað upp eftir á föstudeginum ég, Elin og einu strákarnir sem komu með Stian og Dag Kristoffer en svo voru 5 stelpur sem höfðu farið keyrandi. Frá strætóstoppustöðinni er svo 1 1/2 tíma ganga að skálanum þannig að við hringdum í Mari sem var á bíl og báðum hana um að sækja okkur, það var mjög slæmt samband í skálanum svo það rétt skyldist að það ætti að sækja einhvern. Af einhverjum ástæðum hélt Mari að hún væri bara að fara sækja tvær manneskjur og tók þess vegna Ainu með sér fyrir félagsskap. Svo birtist Mari á pínulitlum Fiat uno og við 4 með fjall af farangri, Elin var nefnilega með mat fyrir 20 manns í bakpokanum sínum ásamt öllu öðru hugsanlegu og óhugsanlegu svo vorum við hin auðvitað með bakpoka og skíði (jámm nema ég var ekki með skíði). Þannig að tróðum okkur 6 inní bílinn 3 frammí og 3 afturí með farangurinn í fanginu og þar sem skíðin komust ekki inn í bílinn sátu Stian og Elin við gluggan og héldu undir skíðin sem voru sem sagt með fram hliðinni á bílnum. Og svo hófst bílferðin upp hóla og hæðir í fljúgandi hálku, tvisvar þurftum við öll að fara út og ýta bílnum upp brekku og þar sem bíllinn var svona þungur að aftan þá var notuð tækni sem ég hef ekki séð áður, einn sat á húddinu meðan hinir ýttu.

Við komumst svo loksins upp í skálann, þar var reyndar rafmagn en ekkert rennandi vatn heldur bara brunnur þarna rétt hjá og svo fötu kamar sem er sem sagt fata með klósettsetu á. Til að hita upp skálann var bara kveikt upp í arninum.
Stelpurnar elduðu svo römmegröt í kvöldmat með flatbrauði og spekemat en flatbrauð er svona örþunnt hrökkbrauð og spekemat er ýmsar tegundir af skinku og spægipylsu. Fyrir þá sem ekki vita er römmegröt bara soðinn sýrður rjómi borinn fram með smjöri, sykri og kanil (ekki kanilsykur því norðmenn hafa ekki áttað sig á því að blanda þessu tvennu saman) Sem sagt norskara en allt norskt. Og þarna borðaði ég minn fyrsta disk af römmegröt og þetta var nú allt í lagi ef maður setti nógu mikið af sykri og kanil, bragðaðist eins og hver annar mjólkurgrautur nema það var svona smá súrt bragð. Og svo var auðvitað drukkið sólberjasaft með og Stian var með ákavíti.

Eftir matinn var spilað trivial, norskt trivial auðvitað, en ef ég stóð alveg á gati þá fékk ég að heyra spurninguna á ensku. Ég og Aina vorum saman í liði, diskó grænar, og byrjuðum með stæl fengum tvær kökur áður en nokkur annar hafði svarðað spurningu rétt en svo fór að halla undan fæti og strákarnir náðu okkur og tóku forustu, við í græna liðinu tókum okkur svo á en meðan við vorum að reyna fá appelsínugula köku, sem var síðasta kakan (helv. íþróttir...) þá náðu strákarnir að klára. Hin liðin tvö stóðu sig alveg afspyrnu illa og tekur því ekkert að minnast á þau.

Við hliðina á skálanum er badestue (eða sána) og auðvitað var hún hituð upp og setið þar langt fram eftir nóttu og svo hent sér í snjóinn að finnskum sið. Stelpurnar höfðu nú flestar gleymt að taka með sér sundföt og voru allar með dvergahandklæði svo þær sátu bara á brjóstahaldaranum og g-strengnum með þvottapokana yfir sér, ég verð nú að minnast á það að Kjersti var í þeim efnisminnstu nærbuxum sem ég hef séð, g-strengur sem samanstóð af tveimur böndum og svo pínulitlum þríhyrningi fremst, tók því varla að vera í þessu...

Laugardagurinn

Þrátt fyrir að fólk hafi ekki farið að sofa fyrr en rúmlega 5 (reyndar voru það Stian, Mari og Aina sem héldu vöku fyrir öllum með háværum umræðum um ekki neitt) þá var einhver sem vaknaði hálf tíu og setti vekjaraklukkuna af stað, fiskur sem söng elvis lög, svo allir voru farnir á fætur fyrir tíu. Stelpurnar voru svo farnar um hádegið og þá vorum við bara rútugengið eftir. Þá voru gönguskíðin dregin fram og allir klæddu sig voða vel, svo byggðum við stökkpall og tróðum út braut og svo var farið í skíðastökkkeppni. Það kom ekki annað til greina en að ég sem hafði aldei stigið á gönguskíði áður (og rúmur áratugur síðan ég fór á venjuleg skíði) myndi prófa, sem ég og gerði og var bara á hausnum eða rann aftur á bak, ég vil taka fram að snjórinn í kringum skálann náði manni upp á mið læri, en þrátt fyrir vankunnáttu mína þá lét ég mig hafa það og gerði tilraun til stökks, í miðri atrennunni datt ég aftur fyrir mig og rann niður á rassinum, með skíðin á undan reyndar, en ég fékk stig fyrir einstakan stíl. Annars var ég útnefndur ljósmyndari og tók myndir af hverju glæsistökkinu á eftir öðru, lengsta stökkið var svo mælt 8,5 metrar og ljósmynd tekin af sigurvegaranum, sem var Stian, þar sem hann stóð stoltur við merkið og með stökkpallinn í bakgrunni.
Dag Kristoffer hitaði svo kakó eftir sinni uppskrift með koníaki og beilís og svo grilluðum við pulsur yfir arninum. Svo þurfti að skera niður allar rófurnar sem átti að bera fram með pinnekjöttinu. Jáhm ég veit sem sagt hvað pinnekjött er, þetta er saltað og þurkað lamba eða kindakjöt sem þarf að liggja í bleiti í sólarhring áður en það er gufusoðið í 3 tíma, það eru settar greinar í botninn á pottinum og vatn og kjötinu staflað þar ofaná, þaðan kemur nafnið pinne = greinar. Þetta er svo borið fram með kartöflum og rófustöppu og stundum uppstúf. Mér finnst alveg merkilegt að þau skulu borða svona mat í ferðalagi, römmegröt og pinnekjött, mér finnst þetta bara eins og ef við færum í sumarbústaðarferð og allir væru bara "hey eigum við ekki að sjóða slátur eða kannski gera saltkjöt og baunir!?"
Svo fóru hinar stelpurnar að koma en allt í allt vorum við 18 sem borðuðum á laugardagskvöldinu. Tina kom keyrandi með fullan bíl af fólki en ekki vildi betru til en hún rann í hálkunni og festi bílinn, Kaja sem var líka á bíl var þá mætt upp í skála og var sendur út björgunarleiðangur til að losa bílinn, sem betur fer var strákur að rúnta á traktor sem kom og losaði bílinn og keyrði svo stelpurnar upp í skála, Ari hetja var hann kallaður allt kvöldið og auðvitað var Ara boðið í pinnekjött.
Aftur var setið í gufubaðinu langt fram á nótt en við vorum nokkrar sem fengu nóg og fórum inn að spila. Flestar stelpurnar fóru svo aftur þá um kvöldið.

Sunnudagurinn
Aftur voru allir vaktir með elvislögum á ókristilegum tíma og tekið til í skálanum, þar sem allir bílarnir voru farnir þurftum við að labba að strætóstoppustöðinni, sem var allt í lagi nema hvað það var alveg rosalega hált á veginum. Ég var svo komin heim rétt fyrir þrjú.

Engin ummæli: