fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Norðurferð 2006

Við æskuvinkonurnar ákváðum að koma Þóru á óvart og fara í óvænta heimsókn til hennar norður á Akureyri. Tilefnið var 27 ára afmæli hennar Þóru Bjarkar. Þessi ferð tók mánuði í undirbúningi og skipulagningu og var Sólveig sjálfkjörinn ferðaskipuleggjari. Eftir margar emil sendingar var ferðaplanið loksins komið á hreint. Nanna ætlaði að hætta snemma í vinnunni á föstudeginum, sækja svo Sólveigu og þær myndu svo sækja mig hálf fjögur, en ég var búin að skipuleggja daginn þannig að ég yrði búin snemma og búin að láta alla vita að færi líklegast svona um hálf fjögur. Svo myndum við hitta Unu við Listaháskólann en hún hafði losað sig undan kennsluskyldu með því að láta bekkinn horfa á Dallasþátt og sendi þau svo að horfa á leikrit.

Norðurferð 2006

Planið var að hitta Unu klukkan fjögur, rúnta í Kópavoginn og sækja langferðabílinn og svo myndum við leggja af stað norður um 18. Mamma hafði reyndar boðist til þess að sækja mig í vinnuna og skutla mér nið'r eftir en ég afþakkaði það pent með þeim orðum að Nanna ætlaði sko að sækja mig klukkan hálf fjögur. Klukkan rúmlega hálf þrjú á föstudeginum var ég búin með öll mín verkefni og reyndi að hringja í Nönnu til að láta hana vita að ég væri bara reddí því ég vissi að Nanna hafði ætlað að hætta svo snemma í vinnunni. En hún svaraði ekki þannig að ég sendi henni skilaboð. Klukkan þrjú hafði ég ekki ennþá heyrt í Nönnu, ég reyndi að hringja aftur en án árangurs. Korter yfir þrjú hringir Nanna, hún er þá að leggja af stað til að sækja Sólveigu en þyrfti fyrst að koma við hjá mömmu sinni. Ég áttaði mig þá á því að þær væru ekkert að fara koma hálf fjögur. Í einfeldni minni hafði ég látist blekkjast af góðu skipulagi hingað til og gleymt því þetta voru Nanna og Sóveig, manneskjurnar sem komu klukkutíma of seint í útskriftarmatarboðið mitt, sem varð til þess að allir fengu kaldar kartöflur með matnum og vel steikt lambalæri. Ég hékk því áfram í tölvunni og skammaði sjálfa mig fyrir að hafa virkilega haldið að þær myndu sækja mig hálf fjögur, og skipulagt daginn út frá því, þegar ég ætti að vita að hálf fjögur þýddi í raun hálf fimm. Klukkan að verða fjögur hringir Sólveig "fyrirgefðu hvað við erum seinar, en.. já... þetta eru bara við..." sagði hún í hálfgerðri uppgjöf. "Já" svaraði ég "við verðum komnar eftir 20 mínútur." Þannig að ég hélt áfram að hanga í tölvunni og brosa vandræðalega þegar fólk kom inná deildina og spurði hvort ég hefði ekki ætlað að fara fyrr í dag, hvort vinkonur mínar hefðu ekki ætlað að sækja mig? Endaði með því að ég stimplaði mig út á venjulegum tíma.

Svo var brunað niðrí bæ að sækja Unu, sem þurfti svo að skila Dallasþættinum góða. Við mjökuðumst áfram í föstudagsumferðinni á vídjóleiguna og svo í Kópavoginn. Sem betur fer var Nanna búin að smyrja nesti sem var dregið upp.
Norðurferð 2006
Ég fyrirgaf henni þá hvað hún var sein, "ég er með bananabrauð" heyrðist í Sólveigu "og það er svo feitt að það þarf ekki smjör". Ég sagðist fyrirgefa henni þegar ég fengi það. Á einhvern undraverðan hátt náðum við svo að leggja af stað úr Kópavoginum 17:38! og brunuðum úr Mosó á slaginu sex. Við vorum alveg gáttaðar. Ferðin norður gekk svo ágætlega framan af, við stoppuðum í Staðarskála og fengum okkur hamborgara, sósu og salat. Langbesta sjoppa sem við höfum komið í.

Norðurferð 2006 Norðurferð 2006 Norðurferð 2006

Svo fór færðin að versna, myrkur og hálka og smá skafrenningur. Ferðin sóttist því seint og til að stytta okkur stundir þá var farið í "hver er maðurinn" og svo hljómsveitaleik, samt ekki hljómsveitaleikinn. Loksins klukkan eitt um nóttina komum við til Akureyrar.

Framhald...

Engin ummæli: