þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Mökulaus

*andvarp* Makan mín yfirgaf mig í vikunni og stakk af til Bandaríkjanna. Þar áður hafði hún ekki hringt í mig í heila viku. Ég skildi eftir tvö skilaboð á talhófinu hennar svo að hún myndi nú hvernig röddin í mér hljómaði en án árangurs. Ég hringdi í hana úr heimasímanum, makan mín svaraði "hæ" sagði ég, "hver er þetta?" spurði makan. Ég varð svolítið sár. Ég svaraði í símann í vinnunni og hún kynnti sig voða formleg "Góðan daginn Hjördís Lára Hreinsdóttir heiti ég, það var verið að hringja í mig úr þessu númeri" "Góðan daginn" svaraði ég "ég var að hringja í þig" og vitið hverju makan mín svaraði!? "og hver ert þú"!!!??? Ég átti ekki til orð.

Ég er búin að senda tvo tölvupósta til Víetnamska sendiráðsins í Danmörku til að fá upplýsingar um verð á vegabréfsáritun. Því ólíkt öðrum sendiráðum sem hafa verðskrá yfir vegabréfsáritanir þá stendur nefnilega á síðunni að maður eigi að hafa samband til að fá upplýsingar um verð. Þau eru ekki ennþá búin að svara og einhvern vegin veigra ég mér að hringja út til Danmerkur og tala við einhvern skrifstofumann sem ég veit ekkert hvort er talandi á ensku.

Annars er búið að vera geðveikislega mikið að gera í vinnunni, mér er gjörsamlega þrælað út og ef ég á að vera hreinskilin þá er ég að fá mig fullsadda því ekki skilar þrældómurinn sér í fleiri krónum inná sparnaðarreikninginn. Og núna er samstarfskonan farin í lúxus krús um Karabíahafið í þrjár vikur og ég sit ein eftir í geðveikinni og þarf í ofanálag að fara þjálfa upp viðvaningana af hinni deildinni til að hjálpa mér.

Svo var ég að fá sendan lista yfir þær kóraltegundir sem ég þarf að þekkja fyrir Mexíkóprógramið. Já mér var skellt í kóralhópinn, líklegast vegna þess að ég hef lært um sjávarhryggleysingja. Nú til að hjálpa mér til að læra þekkja kóralana þá mun hér eftir verða kynntur kórall dagsins. Ég efast ekki um að aðrir hafi jafn mikinn áhuga á þessu og ég enda allir lesendur mínir jafn spenntir yfir fyrirhugaðri ferð og ég sjálf og vilja að sjálfsögðu fylgjast með öllum undirbúningi út í hrögul.

Engin ummæli: