mánudagur, október 09, 2006

Bloggi bloggi

Nú líður ekki á löngu þar til þetta breytist í ferðablogg. Undanfarið hef ég verið að panta flugmiða, fara í læknisskoðun, láta mömmu versla ferðadót fyrir mig í Edinborg, skoða ferðasíður, lesa ferðabækur og nú verð ég bráðum að láta sprauta mig fyrir öllum mögulegum og ómögulegum sjúkdómum. Ég er búin að kaupa flugmiðana og í næstu viku verð ég að borga fyrir "sjálfboðavinnuna". Til að fjármagna svo þetta ævintýri þá hef ég verið að búa til bóluefni og bakteríuæti. Sem er svo sem ágætt svona tímabundið en ég verð að viðurkenna að það verður erfiðara að fara á fætur með hverjum morgninum.

Og hvernig er svo ferðaplanið jú það er ennþá í grófum dráttum það sama og ég skrifaði áður. 8. janúar flýg ég til London, sef þar eina nótt og vakna svo á ókristilegum tíma til að ná fluginu mínu til Cancun. Ég lendi í Mexíkó 9. janúar en prógrammið byrjar 10. janúar. Svo mun ég eyða næstu 10 vikum í að svamla í sjónum og telja kóralla og fiska, einnig að hjálpa skjaldbökuungum út í sjó og kannski að aðstoða við rannsóknir á krókódílum. Að sjálfsögðu mun ég fara og skoða allar Maya rústirnar sem eru þarna allt í kring en mér skilst að maður geti varla farið í labbitúr án þess að ramba fram á týnda borg. Að prógramminu loknu þá ætla ég að taka mér tvær vikur í að koma mér til Mexíkóborgar. 4. apríl flýg ég til Hanoi í Víetnam, með millilendingu í Hong Kong, veit ekki alveg hvað ég á að gera við þennan eina dag sem ég hef þar. Svo er planið að ferðast um Víetnam í einn mánuð, fara yfir til Kambódíu til að skoða Angkor Wat án þess að stíga á jarðsprengju. Þaðan fer ég til Tælands, ætla vera þar í svona tvo mánuði. Ég er líka að hugsa um að kíkja til Laos, veit ekki hvort ég fari þangað frá Víetnam eða þegar ég er í Tælandi. Ég fikra mig svo eftir Tælandi í áttina að Malasíu, hvað ég á að gera í Malasíu er alveg óráðið. Ég er búin að skoða Lonely Planet bókina og er einhvernvegin engu nær, samt mælir LP með því að maður eyði minnst 6 vikum í að skoða Malasíu. Það kemur í ljós. 13. ágúst flýg ég svo til London og hitti þar kindurnar mínar. Við ætlum að fara saman til Egyptalands og kafa í Rauðahafinu í viku. Svo verður auðvitað skoðað aðeins í Egyptalandi það ku víst vera einhverjar merkilegar byggingar þar. Erna og Ernuhlynur og Jenný og Jennýarhlynur verða örugglega bara í viku að skoða en ég held að það eigi eftir að reynast erfitt að fá Bryndísi aftur heim. Ég ætla sjá til hvernig söfnunin gengur hversu lengi ég verð í Egyptalandi, og kannski verð ég komin með algjört ógeð á ferðalagi og langar bara heim með det samme. Efast samt um það, sérstaklega eftir að vera búin að slaka á í lúxus við Rauða hafið.

Engin ummæli: