þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Símamær

Mér var potað á símann eftir hádegi í dag. Það eru svona fimm búnir að hringja og ég skellti ekki á neinn. Sem er framför. Og hvað hef ég annað að gera en að blogga? Ekkert.

Helgin sem leið:
Komst að því að mér finnst ekki lengur gaman að djamma eins og ég væri 21 árs.
Á síðasta fimmtudag kom bandarísk stelpa að nafni Taryn að heimsækja Hjördísi og undirrituðu. Við kynntumst henni í gengum þá ágætu síðu couchsurfing.com. Hún og vinkona hennar komu um síðustu áramót og djömmuðu eins og það væri 1999. Hjördís var sérlegur leiðsögumaður og aðstoðardjammari og ég skellti mér með þeim á djammið tvisvar, mynnir mig... Allavega Taryn fannst við svona líka skemmtilegar og ákvað að kíkja í heimsókn til okkar í tvo daga, en hún var á leiðinni til Þýskalands. Á fimmtudagskvöldið fórum við þrjár að hlusta á Ælu sem var að spila á Amsterdam. Taryn er aðdáandi og spilar þá í vikulega útvarpsþættinum sínum Akwardly Scandinavian. Taryn sem er nýorðin 21 árs, er svona lítil og sæt stelpa, ávalt brosandi, talar við alla, hlær hátt og krúttlega, barþjónar hreinlega keppast við að gefa henni fría drykki og fólk veit ekki af sér fyrr en það er búið að bjóða henni í partý. Og eftir tónleikana þá var henni boðið að djamma með þeim Ælumönnum. Ég sem er komin á gamalsaldur afþakkaði pent partýboð í húsbíl við höfnina og fór heim. Taryn og Fjördís, sem er yngri í anda heldur en ég, fóru og djömmuðu fram undir föstudagsmorgun.
Á föstudagskvöldið hittumst við svo hjá Hjördísi. Ég fór og bjargaði Þóru úr staffapartýi þar sem dónalegt fólk var að reyna fá hana til að skemmta sér. Með einhverja drykkjuleiki og þess háttar leiðindi, spurði reglulega hvort það væri ekki gaman og Þóra svaraði með frosnu brosi.
Við fórum svo niðrí bæ og ég ákvað að taka 21 árs þemað alveg með trompi og fór með Taryn að blikka stráka og höstla drykki. Það gekk allt of vel og man ég lítið hvað gerðist eftir það...

Laugardagskvöldið, þá var afmæli hjá Bryndísi. Ég mætti í rauðum sumarkjól samkvæmt sumarþemanu en lét allt frítt áfengi eiga sig. Að vanda var ég ein makalaus. Fór snemma heim. Fínt partý samt og góð kaka.

Sunnudagskvöldið. Ég, Hjördís og Þóra mættum á Klambratún með garðstóla, teppi og heitt kakó. Það var ekki fyrr en standandi áhorfendum fór að fjölga að ég mundi allt í einu að mér finnst bara leiðinlegt á svona stórtónleikum. Sérstaklega þegar við virtumst hafa plantað okkur niður á einhvern ósýnilegan gangveg, því alla tónleikana var stöðugur straumur fólks sem gekk framhjá okkur. Á heimleiðinni lentum við svo í leiðinlegum strætóbílstjóra sem ég nenni ekki að skrifa um núna því þá verð ég bara pirruð og reið, en þegar ég kom heim þá settist ég fyrir framan tölvuna og sendi strætó nokkur vel valin orð.

Engin ummæli: