ahh hvað þetta er búin að vera fín helgi. Ekkert prógram, eða rosalega lítið prógram... Allavega ekkert heilsdagsprógram. Á kaffistofunni á föstudaginn þá stundi ég sællega yfir viðburðalítilli helginni sem ég ætti framundan, bara ekkert planað! Ein konan sagði að það væri alveg nauðsynlegt að hafa svona helgar þar sem maður gerði ekki neitt. Já.. svaraði ég, það væri reyndar búið að bjóða mér í mat um kvöldið og svo ætluðu gömlu vinkonur mínar að koma á laugardagskvöldið og spila. Og svo hafði ég nú hugsað mér að vinna aðeins í verkefninu mínu. Hún horfði á mig í smá stund, "mér heyrist þú bara hafa nóg að gera um helgina..." sagði hún svo. Ég reyndi eitthvað að malda í móinn...
En allavega Helga frænka bauð mér í mat á föstudagskvöldið í þakklætisskyni fyrir að passa Nagga litla naggrís á meðan hún og fjölskyldan sóluðu sig á Kanarí. Á meðan pössuninni stóð kom reyndar í ljós að Naggi litli var bara Naggína litla, með stóra og feita spena. En við áttum ánægjustundir saman. Líffræðingurinn ég reyndi að fá hana til að hreyfa sig aðeins því mér fannst svo leiðinlegt að sjá hana í þessu litla búri, svo ég sleppti henni reglulega út svo hún gæti aðeins teygt úr stubbafótunum. Naggína varð ævintýragjarnari með hverjum deginum og hætti sér sífellt lengra frá búrinu. Svo flatmagaði hún á brjóstunum á mér á kvöldin og við horfðum á sjónvarpið saman, algjört keludýr. Ég saknað þess að eiga gæludýr... ég sakna Kobba...
Í gær var svo bara vídjódagur. Ég var nefnilega að fá sendingu frá amazon. Horfði á Donnie Darko, directors cut, og myndin meikar bara miklu meiri sens. Richard Kelly (leikstjórinn) og Kevin Smith eru með kommentarí, mér finnst gaman að hlusta á fólk sem er svona vel máli farið. Þóra kom svo til mín og við horfðum á Hroka og hleypidóma og andvörpuðum yfir Mr. Darcy. Þóra er búin að panta BBC þáttaseríuna af amazon og það verður sko maraþon þegar sú sending kemur til landsins, Colin Firth er náttúrulega bara hinn eini sanni Mr. Darcy. Hvort sem það er hinn gamli eða nýji a la Bridget Jones.
Síðar um kvöldið komu svo Nanna og Sólveig og það voru borðuð svona 2 kg af nammi og snakki og kvartað undan því hvað við værum orðnar bumbóttar og svo að við gætum ekki kvartað undan bumbunni og borðað nammi og niðurstaðan varð sú að við ættum bara að vera stoltar af bumbunni, seinna var samt dregin fram bók og leitað ráða um hvernig ætti að klæða af sér bumbuna... Ég og Sólveig tóku Þóru og Nönnu í nefið í trivial, það teymi er svo fáfrótt, það var bara pínlegt að horfa á.
Planið í dag? gera ekki neitt! og hitta ekki neinn. Rosalega ljúft bara.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli