Þá eru ferðaplön næsta árs farin að skýrast. Þar sem Hjördís vill frekar fara að vinna í Kanadíska sendiráðinu, eitthvað sem kallast "framtíðarvinna", hugtak sem er mér gjörsamlega framandi, þá fer ég bara ein á flakk. Þarsíðasta föstudag sótti ég um sjálfboðaliðastarf hjá samtökum sem heita GVI. Þetta eru non-profit samtök sem gera umhverfisrannsóknir fyrir fátæk lönd og fá sjálfboðaliða til að vinna feltvinnuna og borga fyrir verkefnið í leiðinni. Ég er sótti sem sagt um að fá að borga fúlgu fjár til að láta þræla mér út í 10 vikur. Reyndar hugsaði ég vel og vandlega um þetta, og fannst fyrst voðalega hallærislegt að þurfa borga fyrir að fá að "gefa" vinnuna sína. En svo fór ég að hugsa, stjórnvöld fátækra landa hafa samband við samtökin og biðja þau um að koma og gera úttekt á einhverju svæði fyrir sig. Þau hafa ekki efni á að gera það sjálf, en þetta eru samt löndin þar sem mest er um ofveiði, skógareyðingu og þess háttar umhverfisvandamál. Þetta eru líka þau lönd þar sem þarfast er að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og fræða innfædda og kenna þeim að nýta náttúruauðlindir á gáfulegan hátt. Samtökin nota peninginn frá sjálfboðaliðunum til að fjármagna þessi verkefni og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta þá varð ég bara sáttari við að hjálpa þeim að fjármagna rannsóknirnar og leggja til hjálparhönd við framkvæmd þeirra. Sem sagt í Janúar þá fer ég til Mexíkó og mun þar kafa og telja kóralla, fiska og skjaldbökur í 10 vikur. Búa í einhverju kofaskrifli, með engu rennandi vatni. Fólkið hjá GVI var ekki lengi að samþykkja mig, og ég fór í gær og borgaði staðfestingagjaldið.
Eftir það þá hugsa ég að ég taki einhvern smá rúnt um Mexíkó og fer svo kannski til Beliz. Þaðan er stefnan tekin á Malasíu, Tæland og svo Víetnam. Frá Víetnam þá fer ég og hitti stelpurnar í Rauða hafinu. Svo verður farið að skoða píramídana og sfinxinn. Þá verð ég örugglega búin með peningana mína og verð að snúa heim á leið... Ef einhverjum langar að koma með mér part úr leiðinni þá er það alveg kærkomin viðbót :)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli