Ég, Þóra og Una vorum ekkert smá duglegar á sunnudaginn og gengum upp að Glym í Hvalfirði, sem mun vera hæsti foss Íslands. Er á bilinu 160 - 200 m (fer víst eftir því hvernig hann er mældur). Við Þóra fórum nefnilega í síðustu viku og keyptum göngubók og kort og var planið að ganga um Hengilsvæðið, en þegar ég vaknaði sunnudagsmorguninn og leit út um gluggann þá sást Hengillinn ekki, þannig að ég dró fram göngubókina í leit að annarri gönguleið, því ekki væri nú gaman að ráfa um í þoku uppá Hengli. Ég hringdi svo í Þóru og sagði henni að það væri þoka á Henglinum, "já..." var svarið sem ég fékk og á þessu litla orði heyrði ég vonbrigðin skína í gegn. Hún hélt ég væri að fara beila á göngunni. En svo lifnaði yfir henni þegar ég fór að tala um aðrar mögulegar gönguleiðir. Glymur varð fyrir valinu, og við rúntuðum þrjár inn í Hvalfjörð sem ku víst vera náttúruperla og -paradís samkvæmt Ásbirni nokkrum Kristinssyni Morthens.
Við ákváðum að ganga upp austari gilsbakkann, vaða svo yfir ánna fyrir ofan fossinn og ganga niður vestari bakkann. Og þetta var bara rosaleg gönguferð, sigrast á fjölmörgum hindrunum, bæði andlegum og líkamlegum. Samkvæmt okkur Þóru þá jafngilti þessi ganga því að klífa Everest, en ef rætt er við Unu þá var gangan kannski svipuð og að rölta upp Esjuna... veit ekki hvaða leið hún fór, allavega ekki þá sömu og ég og Þóra... Ég datt á mjög tígurlegan hátt, valt hægt og þokkafullt yfir eitthvað grjót, hélt dauðahaldi í birkihríslu og þorði varla að opna augun því ég bjóst við að stara út í ginnungagap, cliffhanger style. Loksins pírði ég fram fyrir mig og þá lá ég bara svo gott sem á jafnsléttu, hliðná einhverri lækjarsprænu. Þetta hafðist samt og við náðum að komast upp fyrir fossinn og vorum svo þvílíkar hetjur og óðum berfættar yfir ískalda ánna. Svo var gengið niður birkivaxna hlíðina í átt að bílastæðinu. Stundum hlóum ég og Þóra svo mikið af aumingjaskapnum í okkur að við hlutum næstum því ótímabæra ferð niður... en við verðum vonandi orðnar fullharðnaðir göngugarpar í lok sumars.
Ég tók svo auðvitað fullt af myndum
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli