mánudagur, maí 01, 2006

Fellur og feykjur

Hjördís hringdi í mig í gærkvöld, henni leiddist, mér leiddist, bara lélegar myndir í bíó, engin bæjarlöngun, ég þurfti að komast í burt frá fuglafræðinni, ég lagði til að við myndum fara í keilu. Ég heyrði það á Hjördísi að hún væri ekkert spennt fyrir þessari tillögu minni en hún jánkaði samt. Svo ég hringdi í kindurnar til að athuga hvort þær vildu ekki vera með í gleðinni. Jenný og Erla voru eins og venjulega til í allt. Bryndís var eins og ég að læra fyrir próf, en hún tekur próflesturinn alvarlegar heldur en ég. Bryndís sagði að hún gæti ekki tekið sér pásu fyrir keilu, hana langar svo að fá hátt í prófinu sem þýðir að Bryndís stefnir á 10. Allavega Bryndís bað mig nú um að gefast ekki upp á sér og ekki að hætta að hringja í hana til að gera hluti, þótt að hún hafi ekki viljað leika undanfarin skipti. Ég hringdi svo kurteisissímtal til Ernu til að láta hana vita að værum að fara í keilu. Hún sagðist hafa lausan tíma fyrri hluta miðvikudags eftir 3 vikur, hvort við gætum ekki haft svona impromtu keiluferð þá. Ég sagðist ætla athuga dagbókina og láta svo mitt fólk hringja í hennar fólk.
Og mikið rosalega er skrítin blanda af fólki í keilu, í brautinni við hliðná okkur var einhver hillbillífjölskylda. Ég áttaði mig engan vegin á fjölskyldutengslunum, hver væri með hverjum, hver væri barn hvers, hver ætti litla barnið sem fótbraut mig næstum því þegar það fleygði yfir til mín keilukúlu. Þarna kom árveknin úr sjálfsvarnarnámskeiðinu og viðbragðsflýtirinn úr kickboxinu í góðar þarfir. Voru þetta foreldrar í keilu með hálfstálpuð börn sín og barnabörn? Ég veit það ekki, þau drukku mikinn bjór og reyktu mikið. Við erum að tala um ljót, teygð og toguð tattú og það vantaði tennur í ýmsa fjölskyldumeðlimi og ekki bara í þá elstu.

Hjördís var klárust í keilu, ég var lélegust, Jenný kenndi sívaxandi bumbubúanum og þar með breyttum þingdarpunkti um lélegt gengi sitt, afsökun sem verður að teljast löggilt. Erla kom samt sterk inn í seinni leiknum og veitti Hjördísi harða samkeppni, hefði eflaust tekið hana ef við hefðum spilað þriðja leikinn.

Engin ummæli: