þriðjudagur, apríl 25, 2006

Sjúklingur

Ég er búin að panta nýtt ónæmiskerfi hjá ACME, það kemur vonandi fljótlega.
Jájá ég er aftur veik, búin að vera hóstandi upp dökkgrænu og þykku slími síðan í síðustu viku. Urgar og surgar í mér eins og astmasjúklingi með tilheyrandi slappleika en sem betur fer hitaleysi. Endaði með því að ég fór á læknavaktina á sunnudaginn, en ekki fyrr en ég var búin að horfa á formúluna. Ég sakna Mika, formúlan var miklu skemmtilegri þegar hann var að keppa. Allavega, þannig að ég fór á læknavaktina, tók með mér bók til að lesa, enda vanur sjúklingur hér á ferð, veit að það er ekki hægt að treysta á gott lesefni á þessum biðstofum. Ég er nú ekki sátt við stólana sem eru á læknavaktinni á smáratorgi, hvað ef maður væri virkilega slappur og hefði ekki orku í að sitja uppréttur í rúman hálftíma, og ég meina fyrst maður er nú að dröslast á læknavaktina yfirhöfuð þá er nú gefið að maður sé slappur. Ég hef nú sjálf ósjaldan hálf legið í sófunum sem eru í biðstofunni hjá heimilislækninum mínum. En já, ég hitt lækni, ágætis kall, hann kynnti sig samt ekki, sem mér fannst skrýtið... yfirleitt er tekið þéttingsfast í hendina á manni. Ég sagði honum flensusöguna mína og að núna væri ég búin að vera hósta lifur og lungum í nokkra daga. Hann hlustaði á urgið og surgið í lungunum mínum og ég bjóst við að vera send aftur heim með þau fyrirmæli að taka því rólega taka hóstasaft á nóttunni til að sofa og sjá til hvort þetta lagaðist ekki bara, annars að koma aftur. Þú veist, þetta venjulega. En nei, þetta lagast örugglega ekki nema þú farir á sýklalyf, var svarið sem ég fékk. Mér er illa við sýklalyf, þau fara svo illa í magann á mér að ég er heillengi að jafna mig eftir kúrinn. Endar yfirleitt á því að ég þarf að taka inn sýrubindandi töflur, einu sinni var ég næstum því búin að fá magasár. Plús að ég er með ofnæmi fyrir pensillíni þannig að ég get ekki fengið hvaða lyf sem er. Læknirinn hlustaði á þessa sögu mína, vildi helst fá að vita hvaða pensillín ég hefði fengið ofnæmiseinkenni af, ég mundi það auðvitað ekki. Hann skrifaði upp á einhverjar töflur og sagðist ætla láta mig fá aðeins minni skammt og þetta lyf ætti ekki að vera svo slæmt í maga. Ég er núna á degi 3 og mallinn er farinn að mótmæla, en hins vegar hefur hóstinn minnkað. Kostir og gallar, kostir og gallar. Gaman að fá svona rétt fyrir prófin, er alveg í toppformi.

Engin ummæli: