Í dag þurfti ég, auk þess að fara í skólann að skreppa í Haga, en það er sá hluti háskólans þar sem Lyfjafræðinemar eru geymdir í öruggri fjarlægð frá öðrum háskólanemum, og er á Hofsvallagötu. Fyrst ætlaði ég að fá bílinn hjá mömmu því það er nú þannig að maður skreppur ekki eitt né neitt ef maður er á strætó. En svo hugsaði ég með mér að það væri nú gott veður úti og ef það væri eitthvað vesen að taka strætó frá Öskju þá myndi ég bara labba. Auðvitað átti ég eftir að sjá eftir þessari ákvörðun minni. Fyrir stuttu þá gerði strætó breytingar á leiðunum hér í hverfinu, gamla tólfan er komin aftur en er núna nr 17, fjarkinn sem ég tek í skólann breytti aðeins hringnum sem hann ekur og kemur nú þremur mínútum fyrr en áður (en er komin á sama tíma og áður niður í skóla þannig í raun hefur strætórúntur minn lengst um 6 mínútur á dag) og hin nýja tólfa, já... ég veit ekkert hvert hún fer, ég nota þann vagn aldrei því hann er 47 mínútur að keyra frá hólunum niður að háskóla. 47 mínútur! Allavega það eru bara tvær vikur síðan þessar breytingar voru gerðar og ég gleymi alltaf að gera ráð fyrir þessum þremur mínútum. Þetta er nefnilega svo lítil breyting að það er ekki eins og ég þurfi að vakna fyrr en samt hefur tímaramminn um morgunrútínuna aðeins hliðrast til sem varð til þess að ég missti af strætó í morgun. Og þar sem það er enginn annar vagn sem ég get tekið niðureftir og mér finnst leiðinlegt að mæta 20 mínútum of seint í tíma þá mætti ég ekki í morgun, þarna hefði nú verið gott að vera á bíl... Nú þá þurfti ég að koma mér niðrá Hofsvallagötu frá hólunum. Ég fór á bus.is og sá að ég þyrfti að taka þrjá strætóa og skiptingarnar voru allar frekar tæpar og ég meina ef maður missir af einum vagni þá eru 20 mínútur farnar. 20 mínútur sem maður getur ekki nýtt í neitt og fara í að hanga í strætóskýlinu og horfa öfundsverðum augum á bílana aka framhjá. Ef ég hefði nú bara fengið bílinn lánaðann... Svo ég tók þessa þrjá strætóa niðrá Hofsvallagötu, þurfti að byðja strætóbílstjórann að láta einn vagninn bíða svo ég næði honum. Og svo hafði bus.is ráðlagt mér að fara út tveimur stoppustöðvum of seint, en ég sá í hvað stefndi og fór bara einni stoppustöð of mikið. Og þurfti auðvitað að labba til baka. Þegar ég var svo að fara heim þá sá ég á strætótímatöflunni að ég gæti nú ekki tekið sömu vagna til baka því þá væri ég alltaf nýbúin að missa af vagninum sem ég ætti að skipta í. Þannig að meðan ég skoðaði kortið, beið eftir strætó og planaði leiðina til baka þá hugsaði ég með mér að ef ég hefði verið á bíl þá væri ég komin hálfa leiðina heim, ég hugsaði líka með mér að almenningssamgöngurnar í La Paz hefðu verið mun þægilegri heldur en þær hér í Reykjavík.
Og svo finnst borginni skrýtið afhverju fólk notar ekki strætó meira, mér finnst það ekkert skrýtið á meðan fátækasta land Suður Ameríku nær að hafa betra kerfi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli