laugardagur, febrúar 11, 2006

Þriðja laugardaginn í röð þurfti ég að mæta í skólann. Þarsíðasta laugardag þurfti ég að mæta til að krifja máf. Afhverju það var ekki hægt að gera það í miðri viku veit ég ekki. En ég var orðin svo pirruð því þetta var eitthvað sem hægt var að ljúka á innan við klukkutíma en vegna skipulagsleysis þá tók þessi krufning þrjá tíma og fóru tveir og hálfur tími í hangs. Síðasta laugardag var lítið próf í fuglafræðinni og í dag var fuglaskoðunarferð frá tíu til fjögur. Næsta laugardag verður aftur fuglaskoðunarferð sem tekur allan daginn. Svona er þetta í líffræðinni, kennurum finnst allt í lagi að láta nemendur mæta hvernær sem er vikunnar og jafnvel hvenær sem er sólahringsins til að vinna að einhverjum verkefnum og þegar við mótmælum þá eru svörin að svona sé bara líffræðin. Mér finnst leiðinlegt að fá svona "af því bara" röksemdarfærslur.
Sem sagt í dag vaknaði ég geðvond með túrverki og svima og svo rúntaði ég í rútu um höfuðborgarsvæðið og horfði á fugla í gegnum ónýtan kíki. Ferðin endaði svo í skógræktarsvæðinu í Hafnarfirði þar sem Tyrkjadúfnapar heldur sig. Dúfurnar þyka merkilegar fyrir þær sakir að hafa þvælst langt út fyrir heimasvæði sitt sem er í Afríku og teljast því vera þær Tyrkjadúfur sem eru norð-vestast í heiminum. Þannig að 16 nemendur í fuglafræði hlupu á eftir tveim dúfuræksnum í skógræktarsvæðinu í Hafnarfirði í þeirri von að sjá eitthvað meira en grátt flögr innan um grenitrén. Ég get með stolti sagt að ég náði að sjá báðar skelkuðu dúfurnar.

Engin ummæli: