mánudagur, janúar 23, 2006

Ég og Hjördís tókum helgina snemma og fórum á Ampop tónleika í Þjóðleikhúskjallaranum á fimmtudaginn. Ampop-menn stóðu sig vel og var fullt út úr dyrum en hljóðið var alveg afleitt, feedback og leiðindi. Af einhverjum ástæðum náðum ég og Hjördís að mæta snemma og ná í sæti við borð. Þetta er svo fáheyrður og sjaldgæfur atburður að við töluðum um lítið annað allt kvöldið.

Á föstudagskvöldið hélt tónleikagleðin áfram og ég og Hjördís fórum ásamt Pétri og Rúnari að hlusta á Mammút, Diktu og Jeff who? sem voru að spila á Gauknum. Þar sem ég og Hjördís erum bara 22ja ára í anda þá vorum við öll spurð um skilríki, Hjördísi til mikillar gleði. Þjónustan á barnum var á heimsklassa, stelpan á barnum tók sinn tíma í að dæla bjór í glösin og var rausnarleg á froðuna, stelpan var samt góð í að lesa fólk því hún sá fljótt á mér að ég kunni ekki vel að meta bjór sem var 1/3 froða, og tók glasið aftur óumbeðin og helti úr fullu bjórglasi sem stóð við dæluna yfir í glasið mitt. Nú punkturinn yfir i-ið var svo þegar hún þurkaði froðuna sem hafði lekið niður með glasinu með bartuskunni þannig að ég þyrfti ekki að halda á blautu glasi. Stelpan setti svo glasið aftur fyrir framan mig og ég var bara svo gáttuð og orðlaus yfir þessari hugulsemi og þjónustu að ég tók bara glasið og gekk yfir til hinna án þess að þakka fyrir mig. Pétur öðlaðist líka nýjan eiginleika þegar hann steig nálægt barnum, eiginleika sem við ýmsar aðstæður gæti talist öfundsverður en kannski ekki þegar mann vantar afgreiðslu, Pétur varð nefnilega ósýnilegur, eða stelpan sem var að afgreiða bara sá hann ekki, ég sá hann samt alveg... skrítið.

En allavega tónleikarnir voru flottir. Ég hafði aldrei heyrt neitt með mammút og voru þau alveg ágæt. Dikta var frábær og líka Jeff who? þótt ég sé hrifnari af tónlistinni sem Dikta spilar. Ég og Hjördís höfum oft rætt um hvað það sé lítið af góðum karlsöngvurum hér á landi og var því sérstaklega gaman að fara tvö kvöld í röð á tónleika með þessum líka fínu söngvurum, ég er sérstaklega hrifin af honum Hauki sem syngur í Diktu.

Á laugardagskvöldið var svo partý hjá Erlu. Eitthvað voru hinir leynilegu aðdáenur mínir feimnir við að stíga fram þannig að ég mætti ein á parakvöldið. Ég var bara bílandi en Erla dældi mojito í hitt liðið sem síðar um kvöldið valt út og studdi hvert annað yfir á Hressó þar sem stigin voru nokkur dansspor. Þar hitti ég Hjalta litla bróður hennar Hjördísar sem ákvað að stíga dansinn með okkur, eftir smá tíma kallaði Jennýar-Hlynur í eyrað á mér að hann héldi að hann væri kominn með aðdáanda og benti með höfuðhnykk í áttina að Hjalta. Híhíhí... Ég svaraði að þótt að kynþokka hans væri engin takmörk sett þá væri þetta nú bara litli bróðir vinkonu minnar, sem ætlaði að fá far með mér. Rúmlega þrjú þegar remix af Madonnuslagaranum Like a prayer byrjaði að hljóma þá yfirgaf ég hópinn, glöð yfir því að vera bara á bíl. Mér skilst að fólkið hafi fljótlega eftir það farið á Rex, alveg agalegt að hafa misst af því... sérstaklega þegar Hlyni fannst vænlegt að finna ríkan kærasta fyrir mig þar. Alltaf gott þegar fólk veit að hverju maður er að leita í fari karlmanna.

Engin ummæli: