Viðfangsefni dagsins í dag í atferlisfræði: ákvörðun námshæfileika hjá músum
Ég og Katrín fengum eitt stykki völundarhús og svo eitt stykki mús og áttum að athuga hversu lengi músin væri að læra að rata í gegnum völundarhúsið. Verðlaunin: vera lokuð inní litlu hólfi, fá litlum matarbita fleygt í sig, vera svo tekin upp á skottinu og látin aftur á upphafsreit. Hljómar ekki spennandi? Það fannst músinni okkar ekki heldur.
Ég var sett í það að sækja músina, sem ég og gerði, valdi eina úr hópnum, tók hana upp á skottinu og ætlaði að skella henni í upphafshólfið en Katrín átti í einhverjum vandræðum með grindina sem lokaði völundarhúsinu svo ég neyddist til að láta músina í lófan, því að þótt að það sé í lagi að kippa mýslunni upp á skottinu þá á maður ekki að halda lengi á þeim þannig. Og á meðan Katrín kvartaði yfir því hvað grindin væri þung fann ég hvernig músin sökkti tönnunum í vísifingurinn á mér, beint í fingurgóminn, lán í óláni að músin valdi þennan stað til að bíta í því framtennurnar stoppuðu á nöglinni á mér því annars hefði hún fengið góðan bita af Herdísi í hádegismat. Og allan tíma meðan ég hrópaði upp "AAAÁÁÁIIII" þá hugsaði ég með mér " ekki kippa fingrinum að þér, ekki rífa músina af því þá missir þú góða part af puttanum, bíddu þar til hún sleppir" sem hún gerði á endanum. Og ég fleygði músinni í hólfið áður en hún myndi ráðast aftur til atlögu og skildi eftir blóðpoll þar, blæddi yfir úlpuna hennar Katrínar, blóðpollur á gólfinu, stór blóðblettur á skónum mínum, með lófan fullan af blóði. Það blæðir mikið úr músabiti. Katrín gat svo fylgst með músinni sleikja upp blóðsletturnar á meðan ég fór að skola af mér blóðið. Músin var svo 38 mínútur að þvælast í gegnum völundarhúsið og álpast inn í lokahólfið, þar sem fleygt var í hana matarbita og hún svo tekin upp á skottinu og látin fara aðra ferð. Næstu ferðir tóku skemmri tíma en í sjöttu ferðinni ákvað músin að þetta væri bara heimskulegt, fór í verkfall, hringaði sig upp í einu horninu og fór að sofa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli