Held að heilinn farið að bræða úr sér bráðum hjá mér, ef eytt síðustu tveim kvöldum í að gera fyrirlestur sem minn hópur í erfðafræði á að vera með á föstudaginn. Þannig er málið að í hverjum verklegum tíma fer einn hópur í gegnum tilraunina sem við gerðum síðast, reyndar erum við tveir hópar saman með eina tilraun núna. Viðfangsefnið er plasmíð og PCR. Ég veit að enginn nennir að lesa nánari skýringar á því hvað plasmíð og PCR er. Við vorum semsagt heima hjá labb-félaga mínum henni Evu í allt gærkvöld að vinna úr niðurstöðunum og svo í kvöld vorum við að setja þetta allt saman upp og búa til powepoint sýningu.
Ég var fórnarlamb frumhvatanna í kvöld, Eva á litla stelpu sem er um 1 árs, og nú haldið þið að það hafi komið einhver eggjahljóð í Herdísi við að sjá hana, neinei sú var sko aldeilis ekki raunin. Ég, eins og vanalega, hélt mig alveg í passlegri fjarlægð enda ekki mikil barnamanneskja, hef þessa undarlegu tilhneigingu að tala við börn eins og þau séu fullorðið fólk, gleymdist að forrita barnamálið í mig. En allavega, einn af strákunum sem við vorum að gera verkefnið með er svona líka mikil barnamanneskja, þar sem við sátum við stofuborðið og vorum að vesenast í skýrslugerð þá var Telma litla ekki sátt við að vera höfð útundan þannig að minn maður tók hana bara í fangið, hafði hana á lærinu og gaf henni rúsínur og vatn og snýtti þegar horið var komið út á kinn. Á meðan ég sat bara og brosti til hennar og afþakkaði pent rúsínuboð. Hvað er þetta með karlmenn og börn, settu barn í fangið á ósjálegum karlmanni og allt í einu verður hann hinn myndarlegasti. Ég kenni genunum um og engu öðru, ég fann bara hvernig litingarnir hrópuðu saman í kór "úh þessi væri góður pabbi, makast við þennann! makast við þennann!" Á meðan skynsemin sagði mér "æ greyið ef hann myndi nú lenda með þér og þú sem hefur engan áhuga á börnum"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli