mánudagur, febrúar 23, 2004

Gleðilegan bolludag!

Það var bolludagur hér í gær, fór til Elínar í bollur, hún var búin að teikna upp kort fyrir mig svo ég myndi rata heim til hennar frá stoppustöðinni og þetta leit nú ekkert út fyrir að vera langt á kortinu og ég í einfeldni minni hélt ég að hún byggi nú í siðmenningunni en nei ó nei. Ég steig út úr strætó og leit á litla miðann með litla kortinu og sá þar merkta stoppustöðina og svo í hvaða átt ég átti að labba og svo ég lagði af stað, labbi labbi labb. Kom svo að brúnni sem ég átti að fara yfir og fann rétta göngustíginn og svo götuna Hengsengveien, en þar býr Elín í húsi nr 14. Og ég labbaði upp götuna og sá þar Hengsengveien nr 2 og svo labbaði ég lengra og lengra og kom svo að vegamótum sem voru nú ekki merkt inn á kortið, auðvitað valdi ég vitlausa leið fyrst, sneri við og fór hina götuna, þá sá ég hús nr 2c og svo nokkur hús í viðbót og þá hugsaði ég með mér, það getur nú ekki verið langt eftir. Svo sá ég mansionið sem Elin hafði minnst á að ég myndi ganga fram hjá og svo sá ég lítið skilti sem benti upp afleggjara Hengsengveien 14 og 15. Jei! hugsaði ég, því það var soldið kalt og glerhált og ég byrjaði að labba, labbi labbi labbi labbi og svo sá ég engin hús meir, bara tré, labbi labbi labb eftir afleggjaranum og lengra og lengra inn í skóginn og svona ljósastaur á stangli. Ekki hafði nú Elin minnst á neinn langan afleggjara... og ég labbaði lengra og lengra og loksins sá ég lítið skilti sem benti Hengsengveien 14 og þá sé ég 4 hús og lít á kortið og þar eru bara 2. Ég hafði auðvitað eins og asni gleymt símanum heima svo ég gat ekki hringt, þannig að ég fór að kíkja á húsin og leita að númeri og hvergi stóð neitt, þá kemur einhver kona keyrandi, skrúfar niður rúðuna og án þess að heilsa eða neitt segir hún fýlulega "hvem er du?" ég útskýrði erindi mitt þarna og spurði hvort hún vissi hver Elin væri og í hvaða húsi hún byggi, konan vissi nú ekkert um neina Elínu en ef hún væri leigjandi þá byggi hún í húsinu fyrir ofan. Svo ég fer að því húsi og sé þar á einni hurðinni nafnið hennar Elínar, svo ég banka, og svo sé ég bjöllu og hringi bjöllunni sem virtist ekki vera í lagi, þannig að ég banka aftur, og banka og banka og enginn kemur til dyra svo ég lem betur og fastar á hurðina og reyni aftur bjölluna, ekkert svar. Þannig að ég labba um húsið og sé þar eldhúsglugga stelpurnar fyrir innan, svo ég kalla og veifa, engin viðbrögð, ég fer og næ í nokkra litla steina og kasta í rúðuna og þær svona hætta að tala og hlusta aðeins en halda svo bara áfram að spjalla, svo ég kasta aftur og Elín lítur út og ég veifa eins og vitleysingur en hún horfir bara í gegnum mig, og ég bara "andskotinn hafi það er ég ósýnileg!" svo ég prófa aftur, tek núna lúku af möl og kasta í rúðuna, hinar stelpurnar standa þá upp og fara rýna út um gluggan og ég stend og kalla og veifa og þá loksins taka þær eftir mér og mér var hleypt inn í kæliklefann sem Elín leigir. Ég skammaði stelpurnar fyrir að vera gjörsamlega heyrnalausar og blindar, og líka Elínu fyrir að búa hálfa leiðina til Danmerkur. En svo fékk ég bollur með vanillukremi, Aina og Bente höfðu misst sig í bollubakstri og bakað 52 bollur! Og mikið ofboðslega var kallt inni hjá Elínu enda deildi hún út lopasokkum, ullarteppum og flíspeysum á alla gesti. Svo sagði ég þeim frá því hvernig bolludagurinn væri á Íslandi og þeim fannst bolluvöndurinn alveg rosalega sniðugur og sérstaklega að maður ætti að segja bolla bolla og flengja fólk.
Ég fékk svo far niður afleggjarann í siðmenninguna þar sem ég gat tekið strætó heim.

úff best að halda áfram að pakka... *andvarp*

Engin ummæli: