þriðjudagur, desember 19, 2006

Fríið

Ég, Jenný og Erna fórum að sjá the holiday í gær. Jenný greyið þurfti að sitja undir andvörpum frá mér kvartandi um sykursjokk og þörf á innsúlínsprautu að sýningu lokinni vegna sykursæts söguþráðar myndarinnar. Marsípan með glassúr ofaná í sjónrænu formi. Hinum megin við Jenný sat Erna agndofa yfir kápufjöldanum sem Cameron Diaz hafði dröslað með sér yfir Atlandshafið, hún hafði orð á því að miðað við fjölda og stærð ferðataskanna þá væri algjörlega óraunhæft að hún væri með svona margar kápur í farteskinu. Hvað mig varðar þá var þetta ósamræmi í myndinni ekki það helsta sem fór í taugarnar á mér. Heldur frekar atriðið eins illa skrifuð samtöl, gjörsamlega ótrúverðug söguframvinda, algjörlega óhugsandi atriði notuð til að pota sögunni áfram. Sem er ekkert annað en letileg og hugmyndasnauð skrif. Dæmi: Kate Winslet hefur skráð húsið sitt í íbúðaskipti, Cameron Diaz rambar inn á síðuna í jólafrísleit og sér húsið. Allt í lagi. Hér kemur ótrúverðuglegi parturinn. Svo skemmtilega vill til að skiptisíðan heldur úti spjallforriti sem Kate er auðvitað logguð inná og með opið í tölvunni sinni. Cameron þarf því ekki að gera annað en að senda henni skilaboð, "Má ég fá húsið þitt lánað, það er rosa sætt?" svo skiptast þær á 5 línum og ákveða að skipta um húsnæði yfir jólin. Og Kate flýgur heimsálfanna á milli, næsta dag nota bene, og veit ekki einu sinni hvernig húsið hennar Cameron lítur út! Allar persónurnar voru svo yfirgengilega góðar og fullkomnar, skildi mann eftir með sykurskán á augunum. Jude Law, gabbar mann fyrst og þykist vera kvennabósi sem fær símhringingar frá kvenfólki sí og æ. En nei. Kemur í ljós að þetta eru dætur hans sem eru að hringja, og þessi einstæði faðir er ekkill. Ekkill! sem er að læra sauma í þokkabót *æl*. Svo eru auðvitað þau skilaboð að konum sem vegnar vel á öllum sviðum í lífinu verða ekki hamingjusamar fyrr en þær hitta hinn eina rétta. Sem skýrir afhverju ég er svo bitur og vansæl að ég get ekki einu sinni notið þess að horfa á rómantíska gamanmynd.
Reyndar fannst mér sagan um Kate og Jack Black miklu áhugaverðari heldur en Jude og Cameron. Hvernig sambandið þeirra þróaðist var miklu raunhæfara heldur en milli seinna parsins, ég hefði alveg viljað sjá mynd með bara þeim tveim. Hins vegar þar sem Jack Black lítur ekki út eins og grískt goð þá var hann hafður sem minnst í mynd og fékk aðeins einn lítinn mömmukoss frá Kate. En það slitnaði auðvitað ekki slefið á milli Cameron og Jude, enda bæði forkunnarfögur.
Ok ég veit að þetta er svona feel good, jólamynd, en common! fyrr má nú aldeilis fyrr vera áður en fólk missir sig með hunangið og sykurbráðina.

/nöldur endar

Engin ummæli: