Eftir háskaför yfir ísilagða Öxnadalsheiðina þá komum við til Akureyrar um miðja nótt. Þökk sé meistaralegum aksturshæfileikum hennar Unu sem einnig naut stuðnings aftursætisbílstjórans Nönnu. Við höfðum verið í stöðugu smáskilaboða sambandi við innanbúðarmann okkar á Akureyri, hana Dittu, meðleigjanda Þóru og vissum að þær höfðu farið í bíó fyrr um kvöldið og að Ditta væri nú að drepa tímann með Þóru þangað til við kæmum í bæinn. Sólveig farastjóri og tónlistarstjórnandi sá um allar skilaboðasendingar en olli nokkrum sinnum smá taugatrekkingi þegar hún hrópaði upp yfir sig að hún hefði kannski óvart sent skilaboðin til Þóru en ekki Dittu. Öll skilaboð rötuðu sem betur fer á réttan stað, enda hefði nú verið fúlt eftir mánaða undirbúningsvinnu að klúðra hlutunum á síðustu metrunum með grunsamlegum smáskilaboðasendingum. Við fórum og sóttum Svövu sem hafði lagt af stað fyrr um daginn með fjölskylduna í farteskinu og sat á hótelbarnum og beið eftir okkur.
Næst var svo komið að því að heilsa upp á Þóru. Við keyrðum að húsinu sem Þóra býr í og læddumst svo flissandi af spenningi að hurðinni og hringdum bjöllunni. Hurðin opnaðist og við gátum varla hamið okkur. Í dyragættinni stóð einhver ókunnug kona og horfði undrandi á okkur "býr Þóra ekki hér?" spurðum við vandræðalega. Jú, við vorum í réttu húsi og konan fór niður og bankaði hjá stelpunum. Ditta kom flissandi upp til að sjá hvort þetta væru ekki alveg örugglega við og kallaði svo á Þóru og sagði henni að það væru komnir gestir.
Þóra varð svolítið hissa.
Við tróðum okkur svo allar inní íbúðina þeirra. Afgangurinn af nestinu var dreginn upp ásamt bananabrauðinu hennar Sólveigar og ferðasagan rakin í smáatriðum, dáðst að eigin dugnaði og morgundagurinn skipulagður.
Þar sem við spjölluðum framundir morgun þá fórum við ekki á fætur fyrr en um hádegi daginn eftir. Svava hringdi þá og spurði hvort við hefðum nokkuð gleymt henni. Við fórum og sóttum Þóru og fengum okkur morgunmat klukkan tvö. Þar fékk Þóra afhentar síðbúnar afmælisgjafir, sjampó (sem Snorra hennar Sólveigar fannst frekar púkalegt, held að hann hafi séð fyrir sér grænann wash'n go brúsa), slökunarolíu fyrir prófin, varasalva og handaáburð. Nanna var samt næstum því búin að beita neiturnarvaldi á handaáburðinn því umbúðirnar voru ekki í stíl við sjampóið.
Þegar Þóra var búin að taka upp gjafirnar þá var keyrt niðrí miðbæ og farið á kaffihús til að fá sér afmælisköku.
Þar sat Ditta og þóttist vera að læra en færði sig fljótt yfir og til að vera með í kökuátinu. Svava kom svo með Ástu Mayu sína og aftur fékk Þóra pakka.
Á meðan við borðuðum kökurnar og dáðumst af smekkvísi Svövu í gjafavali þá gerðum við plön um kvöldmat. Það var ákveðið að elda grænmetis lasagna og gerð var ferð í Nettó og ríkið til að versla fyrir kvöldið. Við héldum svo í íbúðina sem við höfðum leigt yfir helgina og hófumst handa við eldamennsku.
Hér sést hvað Sólveig er efnileg húsmóðir.
Þóra hefur drukkið af viskubrunni Tyru Banks sem sést á hæfileikum hennar til að stræka pósu sem dregur alla athygli frá kræsingunum sem eru á borðinu.
Eftir matinn var að sjálfsögðu farið í aksjónarí og var skipt upp í lið. Púkalega liðið sem samanstóð af afmælisbarninu, Unu og Dittu (kölluðu sig kentárarnir, þvílíkt hallæri) og svo flotta liðið sem samanstóð af undirritaðri, Sólveigu og Nönnu (eða einhyrningarnir, nafngift sem nær í einu orði að lýsa þeim þokka og glæsileika sem stafar af meðlimum liðsins). Það var svo spilað en list og leikrænir hæfileikar vinahópsins verða seint metnir til fjár. Þar sem hér var auðvitað vináttuleikur í gangi þá skipti mestu máli að vera með en ekki hver inni. Þannig hélt svo gleðin áfram frameftir nóttu og komu allavega Sólveig og Þóra syngjandi sælar heim um morguninn. Undirrituð hafði ákveðið að vera innipúki í 17 stiga frostinu og fór ekki í bæinn en fékk fregnir af því að gestir cafe amour hefðu fengið að njóta sönghæfileika stelpnanna þar sem Hjálpum þeim var sungið trekk í trekk.
Á sunnudeginum reis fólk úr rekkju um hádegisbil og steikti undirrituð 3 kíló af beikoni og álíka af eggjum ofan í þunna liðið. Vegna fregna af slæmu veðri fyrir sunnan var ákveðið að leggja snemma af stað suður og áður en varði var komið að kveðjustund og var Þóra kvödd með trega í kulda og snjó norður á Akureyri.
Heimleiðin var frekar tíðindalítil. Sólveig svaf á meðan við hinar sungum ljúfum tónum Hjálpum þeim á leiðinni yfir Öxnadalsheiðina. Aftur var stoppað í Staðarskála og voru mikil vonbrygði að ekki var boðið upp á London lamb eins á norðurleið. Við fengum okkur því aftur hamborgara, sósu og salat. Færðin var góð og sóttist ferðin vel og vorum við komnar í höfuðborgina um átta leitið.
Sóveig sefur værum blundi undir ljúfum tónum vinkvenna sinna um þjáningar fólksins í Afríku.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli